Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skóflustunga tekin að viðbyggingu leikskólans Holts
Föstudagur 4. júlí 2003 kl. 13:31

Skóflustunga tekin að viðbyggingu leikskólans Holts

Í dag var fyrsta skóflustungan tekin að viðbyggingu við leikskólann Holt í Innri-Njarðvík en viðbyggingin verður tekin í notkun í lok desember á þessu ári. Það voru tvö börn af leikskólanum Holti sem tóku skóflustunguna, þau Stefán Ari Bjarnason 3 ára og Salka Björt Kristinsdóttir 5 ára. Kostnaður við framkvæmdina nemur rúmum 76 milljónum króna, en það er Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. sem kostar framkvæmdir við viðbygginguna. Undirbúningur að stækkun leikskólans hefur staðið yfir frá því í ágúst árið 2001 en þá skipaði þáverandi bæjarstjóri vinnuhóp um stækkun leikskólans. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu í október það ár þar sem lögð var til stækkun skólans úr tveimur deildum í fjórar.Viðbyggingin er rúmir 290 fermetrar að stærð og mun hýsa m.a. tvær leikskóladeildir, listaskála og aðstöðu fyrir starfsfólk. Í miðju húsinu verður einnig 30 fermetrar innigarður. Í næstu viku verða opnuð tilboð í fyrsta áfanga framkvæmdanna, þ.e. jarðvinnu, uppsteypu og frágang utanhúss, en þegar er hafin vinna innanhúss.

Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. keypti í maí sl. fasteignir Reykjanesbæjar, en eignarhaldsfélagið er í eigu Reykjanesbæjar, Seltjarnarnesbæjar, Íslandsbanka og Landsbankans.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr.: Það voru þau Stefán Ari Bjarnason 3 ára og Salka Björt Kristinsdóttir 5 ára sem tóku fyrstu skóflustunguna af viðbyggingu við leikskólann Holt, en þau eru nemendur í skólanum. Krakkarnir nutu fulltingis Árna Sigfússonar bæjarstjóra og Magnúsar Jónssonar fósturföðurs Stefáns.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024