Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Skoða varnargarða við Reykjanesbraut og Voga
Reykjanesbrautin þar sem hún liggur ofan byggðarinnar í Vogum. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 27. september 2024 kl. 17:45

Skoða varnargarða við Reykjanesbraut og Voga

Innviðahópur almannavarna er með varnargarða við Reykjanesbraut og Voga til skoðunar. Möguleikar á að leiða hraun til sjávar eða setja upp varnarveggi hafa verið skoðaðir. Engar ákvarðanir hafa verið teknar. Þetta kom fram á íbúafundi í Sveitarfélaginu Vogum á fimmtudagskvöld.

Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís verkfræðistofu, á sæti í innviðahópnum og hann sagði á fundinum að horft hafi verið á möguleikann á að hraun geti runnið yfir Reykjanesbraut allt frá árinu 2021, þegar fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli hófst. Varnir við Reykjanesbraut hafi verið skoðaðar samhliða vörnum við bæði Grindavík og Svartsengi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við skoðuðum líka varnir hér á þessu svæði. Þá lögðum við grunnlínur um varnir hér við Voga og sáum að við höfðum tíma til að koma upp slíkum vörnum því það tæki tíma að fylla þessa rýmd þarna fyrir innan og á þeim tímapunkti gætum við sett upp varnir ef það væri þörf á því. Þar sem undirgöngin (undir Reykjanesbraut) eru er þessi megin rennslislína. Árið 2021 vorum við að horfa á það að hleypa hrauninu til sjávar. Núna erum við að skoða virði þess að hafa Reykjanesbrautina í gangi og erum þá að skoða mögulegar varnir fyrir ofan Reykjanesbrautina,“ sagði Ari á fundinum.

Þéttbýlið í Vogum á Vatnsleysuströnd. VF/Hilmar Bragi

Ari segir engar ákvarðanir hafa verið teknar. Verið er að skoða málið í innviðahóp almannavarna hvaða áhrif þetta hefur. „Þetta eru aðeins erfiðari varnir en leiðigarðarnir í Grindavík og Svartsengi þar sem við erum að leiða hraunið í ákveðnar stefnur en hérna yrðum við að vera með stíflu. Það gefur auga leið að það er takmörkuð lausn þar til hraunið verður það mikið að það fer yfir. Það getur verið lausn til ákveðins tíma og mögulega hættir hraunrennslið á þeim tíma,“ sagði Ari.

Fram kom að varnargarðar hafa verið forhannaðir við Voga, sjávarmegin við Reykjanesbrautina. „Við höfum verið að skoða hversu stórir þessir garðar yrðu. Þeir yrðu ekkert mjög háir. Við erum að horfa til þess að við eigum tíma til að byggja þá. Árið 2021 vorum við með línu við byggðina og í kringum iðnaðarsvæðið vestan við bæinn það eru ekki það umfangsmiklar framkvæmdir að við sjáum að við getum farið í þær eftir að við sjáum hraunrennsli byrja. Við erum líka að skoða varnir við Reykjanesbrautina og meta valkosti, hvað væri heppilegast og hversu stórar varnir það yrðu,“ sagði Ari Guðmundsson verkfræðingum í svari við fyrirspurnum á fundinum.