Skoða möguleika á hraðlest til Keflavíkurflugvallar
- Gangi áform eftir hefjast ferðir eftir 8 ár
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skoða nú þann möguleika að koma á hraðlest úr Vatnsmýri til Keflavíkurflugvallar. Frá þessu er greint á Vísi. Gangi áform eftir verður hraðlestin komin í gagnið eftir átta ár.
Fluglestin ehf. - þróunarfélag stendur að undirbúningi hraðlestarinnar. Að Fluglestinni ehf. standa Fasteignafélagið Reitir, Landsbankinn, Ístak, Efla og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar Kadeco. Lestin yrði raflest sem næði 250 kílómetra hraða og myndi ferðin því taka fimmtán til átján mínútur.
Runólfur Ágústsson er í forsvari fyrir hraðlestina. Erindi um hraðlestina voru tekin fyrir á síðasta fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélagið Vogar hefur samþykkt hraðlestina og er gert ráð fyrir henni í deiliskipulagi Reykjanesbæjar. Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Runólfur að verkefnið verði einkaframkvæmd sem verði greidd upp með seldum miðum.