Skoða leiðir til að hindra söluna á HS Orku til einkaðila
Ríki og sveitarfélög hafa mikla hagsmuni af því að arður af auðlindum á borð við jarðvarma á Suðurnesjum verði eftir í landinu, segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í samtali við visi.is. Hann vill ekki að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku verði seldur einkaaðilum. Í fréttum í gær útilokaði hann ekki að ríkið keypti hlutinn.
Samkvæmt úrskurði samkeppniseftirlitsins má OR ekki eiga meira en tíu prósent í samkeppnisaðila. Steingrímur veltir fyrir sér þeim möguleika að veita tímabundna undanþágu frá því, samkvæmt því er fram kemur í frétt visi.is.
Fulltrúar Orkuveitunnar, borgarstjóri og formaður borgarráðs áttu fund með fjármálaráðherra í gærkvöldi. Steingrímur segir að bæði ríki og borg hafi lýst vilja til að skoða málið nánar, þó án skuldbindinga. Aðrir aðilar gætu komið að því, t.d. lífeyrissjóðir.