Skoða hvort Strætó fái stoppistöð nær flugstöð
Aðstaða er fyrir Strætó á tveimur stöðum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, nokkra tugi metra frá inn- og útgöngum byggingarinnar. Greint var frá því á Vísi og í Fréttablaðinu um helgina að óformlegar viðræður hefðu staðið yfir á milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Isavia síðan árið 2012 um að Strætó fái stæði nær flugstöðinni.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia eru nú í gildi samningar við tvö fyrirtæki um aðstöðuna næst flugstöðinni. Fyrirtækin greiða fyrir aðstöðu inni í flugstöðinni og stæði upp við flugstöðina, og kveður samningurinn á um að þau haldi uppi ákveðnu þjónustustigi, meðal annars ferðum til og frá flugvellinum á sama tíma og öll flug. Nú er verið að skoða hvort sá möguleiki sé raunhæfur að Strætó fái stoppistöð nær flugstöðinni og verður það gert í samhengi við útfærslur til framtíðar á rútustæðum og aðstöðu þeim tengdri.