Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skoða gjaldtöku á áningarstöðum fyrir ferðamenn
Fimmtudagur 9. nóvember 2017 kl. 07:00

Skoða gjaldtöku á áningarstöðum fyrir ferðamenn

-Bæjarstjórnir og ráð fara yfir fyrirspurn frá Reykjanes Geopark

Bæjarráð og bæjarstjórnir sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa farið yfir fyrirspurn frá Reykjanes Geopark sem óskaði eftir afstöðu sveitarfélaganna vegna gjaldtöku á ferðamannastöðum á Suðurnesjum. Mikil aukning ferðamanna hefur orðið á Íslandi en gistinóttum fjölgaði meðal annars mest á Suðurnesjum síðastliðinn septembermánuð eða um 10%. Stærsti hluti hótelgesta eru erlendir ferðamenn. Því er ljóst að álagið er orðið mikið á ferðamannastöðum á Reykjanesinu og auka þarf öryggi og aðgengi á vinsælum ferðamannastöðum á svæðinu.

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að skoðaðir verði möguleikar á gjaldtöku vegna bílastæða á ferðamannastöðum og felur Kjartani Má Kjartansyni bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.
Bæjarráð Sandgerðisbæjar hefur vísað málinu til umsagnar hjá atvinnu-, ferða- og menningarráði Sandgerðisbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjórn Voga telur það mikilvægt að upplýsingar um útfærslu á innheimtu bílastæðagjalda liggi fyrir áður en afstaða sé mótuð. Bæjarstjórn er einnig þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að byggja upp aðstöðu á áningarstöðum ferðamanna í landshlutanum en ítrekar líka mikilvægi þess að fleiri möguleikar til fjármögnunar uppbyggingar verði skoðaðir.

Bæjarráð Garðs telur að ekki sé mögulegt að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu og viðhald með öðrum hætti og að litið verði til eðlilegs aðgengi íbúa.

Bæjarráð Grindavíkur lítur svo á að gjaldtaka á áningarstöðum komi til álita ef ekki sé hægt að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða með öðru móti eða að takmarka aðra fjármögnunarmöguleika.
Flest sveitarfélög eru sammála því að gjaldtaka komi til greina en skoða þurfi alla möguleika í kringum gjaldtöku svo sem verklag, aðgengi og eru þau einnig sammála um fjármögnun verksins, þar þurfi hins vegar að skoða ýmsa möguleika.