Skoða alvarlega að mála „Línuna“ á nýjan stíginn
14.000 manns hafa deilt mynd af nýjum göngu- og hjólastíg
Það er til skoðunar að mála teiknimyndafígúruna Línuna á nýjan göngu- og hjólreiðastíg sem unnið er að því að leggja frá flugstöð Leifs Eiríkssonar og til Keflavíkur.
Nú þegar hefur verið malbikaður stígur frá flugstöðinni og meðfram flugvallargirðingunni að Rósaselstorgi á Reykjanesbraut. Haldið verður áfram með stíginn framhjá Rósaselstjörnum og að Eyjavöllum í Keflavík þar sem stígurinn tengist inn á göngustígakerfi Reykjanesbæjar.
Á dögunum vakti Friðrik Friðriksson úr Keflavík athygli á því að bútur úr stígnum nærri flugstöðinni hafði ekki verið malbikaður og athugasemdinni fylgdi mynd af teiknimyndafígúrunni Línunni, sem fólk á miðjum aldri og aðeins yngra man eftir úr Ríkissjónvarpinu frá því í gamla daga. Ljósmyndari Víkurfrétta tók nýja mynd af vettvangi þar sem malbikið endaði og útfærði „athugasemd“ Friðriks með því að „mála“ Línuna á malbikið í myndvinnsluforriti.
Myndin af Línunni rataði svo á fésbókina þar sem hún tók svo sannarlega flugið því á mánudag hafði myndinni verið deilt yfir 13.000 sinnum á a.m.k. tveimur fésbókarsíðum. Hugsanlega eru orðin til fleiri eintök af myndinni sem nú ferðast um óravíddir internetsins. Viðbrögð netverja eru flest á þann veg að hugmyndin sé snjöll og flestir trúa því reyndar að myndin sé raunveruleg og að Línan hafi þegar verið máluð á stíginn.
Þær upplýsingar fengust hjá umhverfissviði Reykjanesbæjar að nú sé til skoðunar að mála Línuna á göngu- og hjólastíginn. Hún yrði þá máluð þar sem stígurinn mætir Reykjanesbrautinni, enda brautin farartálmi og það er þekkt hjá Línunni úr teiknimyndunum að gera athugasemdir við það þegar hún komst ekki áfram vegna farartálma sem voru af ýmsum toga.
Lokið verður við göngu- og hjólastíginn síðar í haust en hann verður m.a. lagður eftir vegi sem nú er notaður við lagninu á jarðstreng frá Fitjum til Helguvíkur.