Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skoða að skipta út dekkjakurli á sparkvöllum
Ungir knattspyrnukappar við leik á vellinum við Akurskóla. VF-mynd/hilmarbragi
Föstudagur 13. nóvember 2015 kl. 06:00

Skoða að skipta út dekkjakurli á sparkvöllum

- Reykjanesbær bendir á gögn sem segja kurlið ekki hættulegt.

Á sparkvöllum við Akurskóla í Reykjanesbæ, við Grunnskólann í Sandgerði og við Grunnskólann í Garði er dekkjakurl, af þeirri tegund sem Læknafélag Íslands ályktaði árið 2010 að geti verið heilsuspillandi. Fram kom í ályktun félagsins að full ástæða sé til að hafa sérstakar áhyggjur af leik barna á slíku undirlagi.
 
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjanesbæ hefur verið ákveðið að leggja til við gerð fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar árið 2016 að gúmmíkurlinu á sparkvelli við Akurskóla verði skipt út í næstu viðhaldsframkvæmdum. Að sögn Jóns Ben Einarssonar, sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingamála í Sandgerði og Garði er verið að skoða málið hjá sveitarfélögunum. Ekki liggur fyrir hvað verði gert en vel er fylgst með umræðunni.
 
Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi er meðal flutningsmanna tillögu á alþingi um að notkun gúmmíkurls úr dekkjum verði bönnuð á leik- og íþróttavöllum. Hún segir mikilvægt að Reykjanesbær bregðist skjótt við og fjarlægi dekkjakurlið við Akurskóla. „Mér finnst að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ættu að sýna ábyrgð í verki og skipta eitraða kurlinu út strax við Akurskóla og ekki bíða eftir afgreiðslu ríkisvaldsins. Börnin eiga alltaf að njóta vafans,“ segir hún.
 
Á vef Reykjanesbæjar kemur fram að málið hafi verið skoðað. Viðræður við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi leitt í ljós að ekki sé ástæða til að aðhafast meira í málinu að svo stöddu. Þá kemur fram að álit Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja byggi á rannsóknarskýrslu Mengunarvarnastofnunar danska umhverfisráðuneytisins frá árinu 2008 þar sem meðal annars kemur fram að gúmmíkurl úr bíldekkjum valdi hvorki skaða við innöndun rykagna úr kurlinu, nema fyrir fólk sem er viðkvæmt í öndunarfærum, né verulegum skaða fyrir umhverfið, svo sem mengunar grunnvatns. Í skýrslunni er vísað til svissneskrar, franskrar og þýskrar rannsóknar sem sýna sambærilegar niðurstöður sem að mati Reykjanesbæjar þykir ekki ástæða til að rengja. „Við höfum ekkert annað í höndunum en þessa skýrslu og samkvæmt henni er ekki talin sérstök ógn af þessu gúmmíkurli. Hins vegar er gert ráð fyrir að þessu sé skipt út þegar þar að kemur og þar spila ekki síður inn í umhverfisáhrif,“ segir Magnús H. Guðjónsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
 
Á aðalfundi Læknafélags Íslands þann 1. til 2. október síðastliðinn ítrekaði félagið fyrri ályktun sína um dekkjakurl frá árinu 2010 um að stjórnvöld sjái til þess að hætt verði að nota kurl úr úrgangsdekkjum sem fylliefni á gervigrasvöllum og leikvöllum barna. Þá segir að í dekkjakurli séu efni sem geti verið skaðleg heilsu manna, ekki síst barna og ungmenna. Umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun eru hvött til að skylda tafarlaust eigendur og rekstraraðila vallanna til að nota einungis gúmmíkurl án eiturefna á vellina.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024