Skjátur éta sumarblóm á Vatnsleysuströnd
- og fara á golfvöllinn
Talsvert hefur verið um villuráfandi sauðfé um lendur Sveitarfélagsins Voga að undanförnu. Samþykkt sveitarfélagsins um búfjárhald kveður á með ótvíræðum hætti að lausaganga búfjár sé óheimil með öllu. Frá þessu greinir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, í vikulegu fréttabréfi sínu sem hann gefur út á föstudögum.
„Þrátt fyrir þetta hafa verið talsverð brögð að því að skjáturnar hafi hunsað þetta ákvæði samþykktarinnar, og þess í stað ákveðið að éta sumarblóm, túlipana, matjurtir og annað góðgæti garðeigenda, einkum á Vatnsleysuströnd. Sumar gerðust svo djarfar að líta við á golfvellinum, án þess að koma við í skálanum fyrst og ganga frá greiðslu vallargjalda,“ segir bæjarstjórinn.
Vegna alls þessa hefur sveitarfélagið því sent eigendum búfénaðarins bréf með hvatningu um að virða ákvæði samþykktarinnar. Búast má við að féð verði nú flutt í sameiginlegt beitarhólf á Reykjanesskaga. Í venjulegu árferði hefði féð væntanlega verið komið þangað fyrir nokkru, en sökum lélegs tíðarfars í vor hefur sprettan verið rýr og því ekki raunhæft að beita hólfið fyrr en nú.