Skjálftinn fannst til sjós utan við Garðskaga
Sjómenn úti fyrir Garðskaga urðu varir við jarðskjálftann sem reið yfir síðdegis. Frystitogarinn Arnar HU var staddur tvær mílur norðvestur af Garðskaga þegar skjálftinn varð í dag
Árni Sigurðsson, skipstjóri á frystitogaranum Arnari segir í samtali við Ríkisútvarpið að skipið hafi nötrað um svipað leyti og jarðskjálftinn reið yfir en þá var skipið tvær mílur norðvestur af Garðskaga. Hann taldi að eitthvað væri að skrúfunni og hringdi í félaga sinn í landi sem sagði honum af skjálftanum. Þá fundu skipverjar á Stíganda VE fyrir skjálftanum. Þeir héldu líka að þeir væru að fá í skrúfuna en þá reyndist það vera skjálftinn.