Skjálfti lét finna fyrir sér í Svartsengi
Starfsmenn í Svartsengi fundu fyrir jarðskjálfta við Bláa lónið nú kl. 16:07. Skjálftinn mældist 2,2 og með upptök 0,9 km norð-norðaustur af Sundhnúk.
Þrátt fyrir að tugir skjálfta verði á hverjum sólarhring í Svartsengi, eru þeir nær allir það litlir að fólk verður ekki vart við þá. Skjálftinn nú síðdegis var hins vegar nógu kraftmikill til að honum var veitt eftirtekt og minnti fólk á þær aðstæður sem nú ríkja á svæðinu.
„Þetta er fyrsti skjálftinn sem ég finn fyrir hérna síðan 2. mars,“ sagði Sigurbjörn Arnar Jónsson, sem heldur til í Svartsengi og sinnir þar neyðarakstri komi til rýmingar, í samtali við Víkurfréttir.