Skjaldarmerki Danakonungs á Reykjanesvita afhjúpað á Ljósanótt
Mannhæðarhár skjöldur með afsteypu af skjaldarmerki Danakonungs hefur verið settur upp á Reykjanesvita og verður verkið formlega afhjúpað á föstudag á Ljósanæturhátíðinni í Reykjanesbæ. Hallur Gunnarsson, formaður Hollvinasamtaka Reykjanesvita, ásamt fleirum hefur lokið við uppsetningu á afsteypunni sem gekk ágætlega og prýðir verkið nú vitann. Reykjanesviti er um 30 metra hár og stendur í rúmlega 100 metra hæð yfir sjávarmáli.
Hollvinasamtökin hafa áhuga á að nýta húsnæði neðan vitans sem m.a. hýsir ljósavél og vilja koma þar upp sýningu sem tengist vitanum.
Frá vígslu Reykjanesvita hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár, skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs. Merkið þótti á sínum tíma mikilvæg viðurkenning konungs á mannvirkinu en Kristján IX var konungur Danmerkur 1863–1906. Þegar vitinn var vígður hafði sonur Kristjáns, Friðrik VIII, tekið við stjórnartaumum í Danmörku og var þá skjaldarmerki hans sett yfir það fyrra.