Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 11. október 2001 kl. 10:50

Skipulögð áfallahjálp í sveitarfélögum

Nýlega fjallaði stjórn SSS um bréf frá Hjálmari Árnasyni, alþingismanni, þar sem óskað er eftir því að sambandið beiti sér fyrir því að komið verði á skipulagðri áfallahjálp á Suðurnesjum. „Eftir hið hörmulega sjóslys, þegar Una úr Garði fórst og með henni tveir ungir menn, hefur ýmsilegt
komið í ljós“, segir Hjálmar en einn úr áhöfninni hafði samband við hann og lýsti því hvernig gengið hefði að hefja nýtt líf að loknum þessum hræðilegu atburðum. „Niðurstaðan af því er eiginlega sú að skipulögð áfallahjálp hafi brugðist. Mér þykir rétt að taka fram að skipverjinn ásakar
engan en lýsing hans bendir eindregið til þess að skipulag vanti hér semannars staðar. Eftir að eftirlifendur slyssins voru komnir heim má segja að lítið hafi skipulega verið unnið að því að styðja þá til að ná fullum tökum á lífi sínu að nýju. Þeir þurfa ekki bara að glíma við eigin sorg og tilfinningar heldur um leið að stússa í alls kyns kerfismálum. Þetta segir mér að hér þurfi að verða breyting á því fátt er mikilvægara fyrir einstaklinga og samfélagið en að vinna faglega og
markvisst á sorgarviðbrögðum. Þetta snertir okkur öll“, segir Hjálmar. „Við því þarf að bregðast með réttum hætti. Ég veit að fullur vilji er til að taka skipulega á málinu og í því trausti ritaði ég stjórn SSS bréf um það. Mér finnst líka ánægjulegt hversu vel stjórnin tók málaleitaninni. Þá mun ég fylgja þessu eftir inni á Alþingi með þingsályktun um að slík kerfi verði byggt upp í öllum
sveitarfélögum.“ Í ályktuninni er mælst til þess að ríkisstjórn beiti sér fyrir því í samstarfi við sveitarfélög að koma á fót skipulagðri áfallahjálp innan sveitarfélaganna. Þar kemur einnig fram hversu mikil áhrif af mannskæðum slysum geta verið, bæði fyrir einstaklinga sem og samfélagið í heild. Með því að setja á fót stjórnunarnefnd áfallahjálpar á hverju svæði er hægt að koma til móts við andlegar og fjárhagslegar þarfir fórnarlamba slíkra slysa.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024