Skipulagsbreytingar hjá Nóatúni: 13 manns sagt upp
Þrettán manns hefur verið sagt upp hjá verslun Nóatúns í Keflavík, en í versluninni starfa rúmlega 20 manns. Að sögn Eiríks Guðmundssonar verslunarstjóra er um skipulagsbreytingar að ræða. Aðspurður sagðist Eiríkur ekki vita hvort starfsfólkið yrði endurráðið. „Ég þarf tíma til að vinna að endurskipulagningu og get ekki sagt til um hvort þessir starfsmenn verða endurráðnir. En við erum ekki að fara að loka,“ sagði Eiríkur í samtali við Víkurfréttir. Flestir þeirra sem sagt var upp störfum eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest.