Skipti um lag og valt
– Ölvaður ökumaður velti bifreið
Ökumaður, sem grunaður er um ölvun við akstur, velti bifreið sinni á Garðskagavegi í gærmorgun. Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn á vettvangi og var hann fyrst fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.
Að því loknu var hann færður á lögreglustöð. Þar viðurkenndi hann að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Að auki voru ökuréttindi hans fallin úr gildi.
Hafði óhappið viljað til með þeim hætti að hann var að skipta um lag í útvarpinu og misst við það stjórn á bifreiðinni með framangreindum afleiðingum. Bifreiðin var fjarlægð með dráttarbíl.
Annar ökumaður var handtekinn um helgina, einnig grunaður um ölvunarakstur.