Skiptar skoðanir innan Samfylkingar um ECA Programs
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist ekki vera sátt við hugmyndir um að fyrirtækið ECA Programs hefji starfsemi á Íslandi. Hugmyndir fyrirtækisins snúast um að leigja þjóðum innan NATO samstarfsins gamlar rússneskar herþotur til heræfinga. Þetta hefur visir.is eftir Steinunni.
Steinunn Valdís segir í samtali við visir.is að eftir því sem hún hafi kynnt sér starfsemi fyrirtækisins og skoðað heimasíðu þess geti hún ekki séð annað en að um einkaher sé að ræða. Hún telur að Ísland eigi ekki að tengja sig við starfsemi af þessu tagi.
Björgvin Sigurðsson og Róbert Marshall, þingmenn Samfylkingarinnar, hafa báðir sagst vera fylgjandi því að ECA Programs hefji starfsemi hér á landi.