Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 16. september 1999 kl. 15:44

SKIPSTJÓRI OG STÝRIMAÐUR HAUKS GK SÝKNAÐIR:

Mistök Landhelgisgæslunnar Ólafur Þórðarson, skipstjóri Hauks GK 25, og Sverrir Andrésson stýrimaður voru þann 9. september síðastliðinn sýknaðir fyrir Héraðsdómi Reykjaness af ákæru um veiðar með ólögleg veiðarfæri. Þann 10. maí síðastliðinn stöðvaði varðskipið Óðinn veiðar Hauks GK á Eldeyjarbanka (GPS 63°49, 65´N - 023° 52,72’) og að loknum botnvörpumælingum Landhelgisgæslumanna var Haukur færður til hafnar í Sandgerði þar sem skipið var sett í hafnbann. Gamli, þvældi, pokinn margmældur Umrætt meint ólölegt veiðarfæri var gömul botnvarpa sem samkvæmt framburði Ólafs skipstjóra, fyrir rétti, hafði staðið til að kasta sökum þess hve gamall hann var en verið haldið um borð sem vara- eða neyðarpoka og er hann skoðaði pokann fyrir notkun hafi hann talið að möskvar pokans væru líklegast of stórir. Gamli pokinn var fyrst mældur af 2. stýrimanni og háseta Óðins og síðan af 3. stýrimanni varðskipsins. Í Sandgerðishöfn mældi starfsmaður Netaverkstæðis Suðurnesja pokann á ný að viðstöddum rannsóknarlögregluþjóni úr Keflavík og að lokum mældu dómkvaddir matsmenn pokagreyið. Niðurstaða mælinga dómkvaddra matsmanna , sem m.a. töldu ástand pokans vera lélegt, var höfð til grundvallar ákvörðunar Guðmundar L. Jóhannessonar, héraðsdómara. Möskvastærðin innan viðurkenndra vikmarka gæslunnar Málaflutningur ákæruvaldsins féll í raun um sjálfan sig þegar í ljós kom að stærð möskvanna í botnvörpunni var innan 3% vikmarka Landhelgisgæslunnar og samkvæmt óskráðri en viðtekinni venju gæslunnar væri ekki kært í slíkum tilfellum heldur lagt að skipsstjórnarmanni að taka veiðarfærið úr notkun. Gæslan að vinna sína vinnu en... Ólafur Þórðarson, skipstjóri, var ánægður með málalokin. „Við vorum bara að sinna okkar vinnu og notuðum pokann í góðri trú. Möskvastærð veiðarfæra er mæld þegar þau koma ný frá Hampiðjunni og samkvæmt reglunni ættu möskvarnir að stækka við notkun. Í þessu tilfelli virðist sem pokinn hafi skroppið saman þar sem hann var geymdur á pallinum, í sól og regni. Það var mikill léttir að fá þessa niðurstöðu því það er mjög óþægilegt að vera grunaður um ólöglegt athæfi. Ég veit Landhelgisgæslan var aðeins að vinna sína vinnu en það var slæmt að missa úr veiðidagana sem við vorum í farbanni vegna mælinga sem í besta lagi voru á gráu svæði.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024