Skipi bjargað fyrir utan Grindavík
Fiskiskip fékk í skrúfuna
Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Oddur V. Gíslason frá Grindavík, er á leið að sækja skip sem fékk í skrúfuna um 15 sjómílum suðaustur af Grindavík. Um er að ræða 160 tonna fiskiskip og eru sex manns um borð.
Ekki er talin mikil hætta á ferðum því sjólag er ágætt á svæðinu og skipið er ekki nærri landi. Gert er ráð fyrir að björgunarskipið komi á staðinn um klukkan 08:30 en um klukkustundar siglingu er að ræða.
Verður fiskiskipið þá tekið í tog og dregið til hafnar í Grindavík, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.