Skipbrotsmaður fær hlýjar móttökur í Sandgerði
Sævar Brynjólfsson skipverji á Húna KE sem bjargað var í kvöld fékk hlýjar móttökur frá Ingibjörgu Hafliðadóttur eiginkonu sinni þegar hann kom í land í Sandgerði á miðnætti í kvöld. Húni KE sökk um 20 sjómílur norðvestur af Sandgerði í kvöld, en skipverjar af Sólborgu RE-76 björguðu Sævari þar sem hann sat á stefni bátsins sem maraði nær allur í kafi.
„Maðurinn sat á blástefninu og báturinn maraði í hálfu kafi þegar við komum að honum. Hann var klæddur í þunna peysu og var mjög kaldur og þrekaður,“ sagði Ásgeir Baldursson skipstjóri á Sólborgu RE-76. Ásgeir sagði í samtali við Víkurfréttir að ágætlega hafi gengið að ná Sævari um borð í Sólborgu. „Þegar við vorum búnir að ná honum um borð settum við hann í heita sturtu og dúðuðum hann svo niður í rúm. Hann var nokkuð lengi að ná sér.“
Ásgeir telur að Sævar hafi setið á stefni bátsins í eina til eina og hálfa klukkustund og hann segir að gott hafi verið í sjóinn. Að sögn Ásgeirs sannaði tilkynningaskyldan sig í kvöld, en það var vaktmaður hjá tilkynningaskyldunni sem bað skip og báta að grennslast fyrir um Húna KE þegar báturinn svaraði ekki ítrekuðum köllum Reykjavíkurradíós. Sólborgin var stödd um 5 og hálfa mílu frá Húna KE og sagði Ásgeir að Húni hafi sést á radar þegar þeir voru hálfa mílu frá honum. „Við vorum manna fegnastir að sjá manninn sitjandi á stefninu þegar við komum að honum og sem betur fer fór þetta allt vel.“
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Ingibjörg Hafliðadóttir tók vel á móti eiginmanni sínum, Sævari Brynjólfssyni sem bjargað var í kvöld eftir að bátur hans sökk um 20 sjómílur norðvestur af Sandgerði.
Ásgeir Baldursson skipstjóri á Sólborgu RE-76 sagði að ágætlega hafi gengið að ná manninum um borð.