Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skipaþjónustuklasi í Njarðvík í höfn - 3 milljarða framkvæmdir og hundruð starfa skapast
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 11. desember 2020 kl. 17:48

Skipaþjónustuklasi í Njarðvík í höfn - 3 milljarða framkvæmdir og hundruð starfa skapast

Umfangsmikil uppbygging hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík þar sem byggður yrði skipaþjónustuklasi til að taka á móti og þjónusta stærstu fiskiskip landsins er í höfn eftir samþykkt framlags frá ríkinu á Alþingi í dag en um er að ræða framkvæmdir fyrir allt að þrjá milljarða króna. Skipasmíðastöð Njarðvíkur og Reykjaneshöfn vinna saman að verkefninu með stuðningi ríkisins og Reykjanesbæjar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður í Suðurkjördæmi sagði eftir að málið var samþykkt við aðra umræðu breytinga á fjárlagafrumvarpi á Alþingi að það væri ánægjulegt og mikilvægt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er afar ánægjulegt að sjá þessa breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar hér á pappírum. Við höfum lengi reynt að vekja athygli á þessu mikilvæga atvinnumáli á Suðurnesjum. Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans er lagt til að 350 millj. kr. verði lagðar til Hafnabótasjóðs en Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur lengi undirbúið uppbyggingu þurrkvíar við Njarðvíkurhöfn. Forsenda þess að svo geti orðið og skapað þar með tugi starfa er að ríkið komi einnig inn með fjárframlag til að gera nauðsynlegar framkvæmdir á höfninni og við höfnina. Fjárfestar hafa sýnt málinu mikinn áhuga og sveitarfélagið og skipasmíðastöðin hafa unnið gríðarlega vandaða undirbúningsvinnu við þetta verkefni,“ sagði Silja Dögg.

Auk 350 milljóna í breytingartilllögunum hafa þegar verið samþykktar framkvæmdir hjá Reykjaneshöfn fyrir 270 milljónir króna sem verða færðar í þetta verkefni. Ríkið mun leggja til um 600 milljónir króna og Reykjaneshöfn um 350-400 millj. kr. en kostnaður við dýpkun og gerð varnargarðs til að hægt verði að taka við stærstu skipum landins, kostar um 1 milljarð króna. Framkvæmdir munu líklega hefjast næsta vor.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur munu kosta byggingu flotkvíarinnar og húsið utan um hana en kostnaður við það verkefni er áætlaður á bilinu 1,5 til 2 milljarðar króna. Skipsmíðastöðin hefur fengið tilboð í smíði kvíar og húseininga frá Tyrklandi sem yrði flutt sjóleiðina til Íslands í tvennu lagi. Húsið verður 33 metrar á hæð, 135 metra langt og 40 metrar á breidd. Það mun geta tekið inn öll stærstu fiskiskip íslenska flotans og einnig varðskip Landhelgisgæslunnar.

Framkvæmdirnar og þegar þurrkvíin verður komin upp munu skapa 250 til 350 bein og óbein störf.

„Mörg stærri fiskiskipa flotans hér á landi hafa farið til útlanda til að fá þjónustu, viðgerðir og viðhald. Við ætlum að fjárfesta í yfirbyggðri skipakví sem gæti tekið þessi stærri skip. Það er því til mikils að vinna fyrir okkur og samfélagið á Suðurnesjum. Við teljum það ekki óraunhæft að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingarklasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250 til 350 bein og óbein störf,“ sagði Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, þegar viljalýsing um málið var undirrituð fyrr á þessu ári. 

Ekki er ólíklegt að þurrkvíin geti tekið við fyrstu skipunum, gangi allt að óskum í framkvæmdum, á árinu 2022.

Tölvugerðar myndir sem sýna stóru þurrkvína á landfyllingu ásamt sjóvarnargarði og viðlegukanti fyrir stóru skipin, m.a. skip Landhelgisgæslunnar.