Skilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu á barnaklámi
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 33 ára gamlan karlmann í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa barnaklám undir höndum. Maðurinn sem búsettur er í Grindavík hefur áður fengið dóm fyrir sömu sakir.
Fann lögregla 174 ljósmyndir og 166 hreyfimyndir í tölvum og flakkara mannsins, sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Maðurinn játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru.
Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi verið haldinn geðröskunum af ýmsu tagi frá unga aldri, auk þess sem hann sé talinn vera misþroska. Hann hefur verið í reglubundnum viðtölum hjá sálfræðingi og geðlækni undanfarna mánuði. Í ljósi þess taldi dómurinn rétt að skilorðsbinda refsinguna.