Skilin eftir við Helguvíkurveg til að deyja?
„Fann þessu sætu litlu systkini á laugardaginn þar sem ég var úti að labba með tíkina mína hana Hnetu. Förum yfirleitt út fyrir bæinn og tökum hring framhjá Helguvík og Grófinni og þar hefur líklega einhver „óvart misst“ þá út bílnum hjá sér við veginn. Þarna sátu þessu grey og hrísluðust úr kulda og vissu ekki sitt rjúkandi ráð,“ skrifar knattspyrnudómarinn og veitingamaðurinn á Réttinum í Keflavík, Magnús Þórisson, á Fésbókarsíðu sína. Hann fann kettlingana tvo á myndinni hér að ofan og leitar nú að nýju heimili fyrir þá.
„Fyrst ætlaði ég að labba áfram en strákurinn, nú kallaður Rúnar hljóp á eftir okkur og kallaði eftir miskunn... Ofar á veginum mátti heyra í stelpunni, nú kölluð Sandra, gráta eins og ungabarn allveg búin á því og hefði hún aldrei lifað af nóttina. Þegar hér var komið við sögu snéri tíkin mín hún Hneta við og hljóp upp veginn til Söndru og neitaði að fara frá henni. Því var ekkert annað að gera en að taka systkinin með heim. Það kom strax í ljós þegar heim var komið að Rúnar og Sandra eru kassavön og algjörir snyrtipinnar. Ég get því miður ekki haft þau blessunin hjá mér og leita því nú logandi ljósi að fallegum heimilum fyrir þau. Ef þið vitið um einhverjar góðhjartaðar manneskur sem hugsanlega myndu vilja svona lítinn Rúnar eða litla Söndru, látið mig endilega vita fallega fólk,“ skrifar Magnús Þórisson að endingu.
Magnús Þórisson má m.a. finna á Facebook með því að smella hér!