Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 7. mars 2003 kl. 11:57

Skilaboð með dansbanni

Reykjanesbær ætlar að banna einkadans. Bæjarstjórnin segir bannið vera siðferðisskilaboð og til þess ætlað að túlka allan vafa þeim í hag sem telja að ólögleg starfsemi tengist nektardansstöðum.Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun breyta lögreglusamþykkt og banna einkadans
í næturklúbbum. Í greinargerð meirihluta bæjarstjórnar segir að þó lög leyfi nektardans sé heimilt að setja starfseminni skorður í samræmi við nýjan dóm Hæstaréttar um einkadans í Reykjavík. Yfirvöld verði að geta fylgst með nektardansi til að ganga úr skugga um að allsherjarreglu og velsæmis sé gætt og að ekki fari fram refsiverð háttsemi í næturklúbbum.

„Það er skylda stjórnmálamanna að taka þátt í upplýstri umræðu um þessi málefni og bregðast við ef nýjar upplýsingar koma fram. Þrjú af þeim fjórum bæjarfélögum sem leyfa starfsemi nektarstaða hafa þegar brugðist við og þrengt að starfsemi staðanna með því að banna einkadans, m.a. í þeim tilgangi
að sporna við óæskilegum áhrifum þessara staða,“ segir bæjarstjórnin.
Bæjarstjórnin í Reykjanesbæ segir enn fremur að í ársskýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar um mansal árið 2002 komi fram að stúlkur hafi verið seldar mansali frá Eistlandi til Íslands í þeim tilgangi að misnota þær kynferðislega.
„Þó svo að sönnur hafi ekki verið færðar á þessar fullyrðingar bandarísku utanríkisþjónustunnar ber að taka þær alvarlega. Skýrsla dómsmálaráðuneytisins um vændi á Íslandi, sem út kom 2001, styrkti mjög grun um að á sumum nektarstöðum væri stundað vændi,“ segir bæjarstjórnin.

Talið er að á árinu 2001 hafi að minnsta kosti eitt þúsund útlendar konur komið til Íslands til að starfa á nektarstöðum:
„Eftir að bannið við einkadansi tók gildi er talið að fjöldi ,,dansara“ hafi farið niður í 150 á síðasta ári. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem hljóta að vekja alla til umhugsunar,“ segir bæjarstjórnin, sem telur það skyldu sína að bregðast við á sama hátt og önnur bæjarfélög hafi gert:
„Með því er ekki verið að fella neinn dóm yfir þeirri starfsemi sem hér er í Reykjanesbæ, heldur viljum við senda ákveðin siðferðisskilaboð, ekki síst til æsku Reykjanesbæjar, en um leið túlka allan vafa þeim í hag sem telja að ólögleg starfsemi tengist þessum stöðum.“
Fjórir af ellefu bæjarfulltrúum sátu hjá; tveir frá Samfylkingu og tveir frá Sjálfstæðisflokki.

Ekki náðist samband í gær við nektardansstaðinn Casino í Keflavík, sem er sá eini sinnar tegundar í Reykjanesbæ.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024