Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skíðabrekka í Innri-Njarðvík
Mánudagur 30. janúar 2006 kl. 17:53

Skíðabrekka í Innri-Njarðvík

Mikið fjall hefur risið í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ en undanfarnar vikur hafa vinnuvélar ÍAV flutt efni sem til fellur úr vegavinnu í fyrirhugaða sleða- og skíðabrekku. Á sama stað og fjallið handgerða stendur nú var brennuhóllinn áður og enn fyrr var þar steypustöðin þar sem steypan sem fór í Reykjanesbrautina fyrstu var hrærð.

Viðar Már Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að málið orsakist af því í aðra röndina að erfitt og dýrt sé að losa allt það jarðefni sem kemur úr vegstæðunum í Dalshverfi. „Við ákváðum þess vegna að nota efnið á hagkvæman hátt og því rís hóllinn eins og sést vel og þá hefur efnið einnig verið notað í manir meðfram Reykjanesbraut og fleira. Við erum ekki hætt og munum halda þessu áfram, að móta skemmtilegt landslag í nýja hverfinu og upp á Stapa eftir því sem byggðin færist innar.“

Hóllinn er kominn í allmikla hæð eins og sést á meðfylgjandi mynd, en hann mun þó ekki hækka mikið úr þessu. Nú verður efni set í hlíðarnar til að draga úr brattanum.

Viðar bætir því við að spurður að framkvæmdir gangi afar vel við vegavinnuna í nýja hverfinu. „Þeim gengur þetta afar vel og eru allnokkuð á undan áætlun sem gerir ráð fyrir að verkinu sé lokið um miðjan maí. Svo erum við að fara að bjóða út vegavinnuna í nýju göturnar í Ásahverfinu á næstunni þannig að hér í Reykjanesbæ er allt á fullu.“

VF-myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024