Skessan fékk kjaftshögg og varð tannlaus
Á mánudagsmorgun, þegar hafnarstarfsmenn sem gæta Skessunnar í Hellinum, komu að opna hellinn hennar gestum til ánægju og yndisauka urðu þeir varir við að Skessan hafði misst málið og var orðin tannlaus.
Einhverjir óprúttnir aðilar höfðu brotist inn í hellinn hennar um helgina og slegið tennurnar úr henni og stolið hátölurunum sem gefa henni rödd.
En fyrir lok vinnudags höfðu hafnarstarfsmenn tekið að sér tannlækningar og komið tönnunum tveimur á réttan stað í Skessuna og síðan settu þeir sig í hlutverk talmeinasérfræðinga og færðu henni hátalara þannig að Skessan fékk rödd sína aftur.
Segið svo að hafnarstarfsmenn séu ekki fjölhæfir.