Skemmtilegar gamlar skátamyndir
Skátahreyfingin á Íslandi fagnar 100 ára afmæli í dag og Skátafélagið Heiðabúar í Keflavík varð 75 ára í september.
Skátahreyfingin á Íslandi fagnar 100 ára afmæli í dag og Skátafélagið Heiðabúar í Keflavík varð 75 ára í september síðastliðnum.
Frá 1956-59 tók Birgir Guðnason, málarameistari, mikið af myndum í bæjarlífinu en hann ásamt mörgum fleirum voru í skátahreyfingunni sem var öflug á þessum tíma í Keflavík. Birgir kom með nokkrar myndir til Víkurfrétta sem við birtum með þessari frétt í tilefni tímamótanna hjá skátum. Þetta eru myndir sem Birgir tók 1957 á Sumardaginn fyrsta en þá eins og nú eru skátarnir jafnan í eldlínunni.
Í Víkurfréttum fyrr á þessu ári var talað við Vilborgu Norðdal, félagsforingja í skátafélaginu Heiðabúum. Þar sagði hún m.a.:
„Það hefur fækkað í félaginu en við höldum okkar markaðshlutdeild ef hægt er að orða það þannig,“ segir Vilborg Norðdal félagsforingi Heiðabúa, skátafélags Keflavíkur en hún segir markvisst starf vera í gangi þó að það sé ekki jafn mikið fólk í skátunum og tíðkaðist hér áður fyrr. Í skátunum eru krakkar frá 7-8 ára fram á unglingsárin og að sögn Vilborgar hefur skátastarfið breyst undanfarin ár, áður var þetta mjög mikið byggt á jafningjafræðslu. „Foringjar voru kannski 1-2 árum eldri en krakkarnir sem þau voru með í fræðslu. Allir foringjar verða að vera 18 ára eða eldri þannig að við erum að keyra á krökkum sem eru 18 ára og eldri. Að því leyti fækkar í hópnum, þetta er orðið miklu meira uppeldisstarf. Nú erum við komin með bækur, alvöru námsefni, handbækur sem við höfum okkur til stuðnings. Við vinnum eftir því að „við lærum með því að gera“ okkur finnst krakkarnir læra meira þannig.“
F.v. Hrefna Tynes, yfirskátaforingi, heiðrar Jóhönnu Kristinsdóttur, Jönu Ólafsdóttur og Jónu Margeirsdóttur en þær Jana og Jóna voru í Bandaríkjunum. Mæður þeirra eru á myndinni og tóku við viðurkenningunum fyrir þeirra hönd.
Skátastúlkur úr Keflavík ásamt Gunnar Þorsteinssyni, deildarforingja. Heiðarbúar voru fyrsta skátafélagið á Íslandi sem höfðu kvenskáta innan sinna vébanda.
Skátar bera íslenska fánann á 17. júní í Keflavík 1957.
Frá 20 ára afmæli Skátafélagsins Heiðabúa í Keflavík í Krossinum 1957.
Höskuldur Goði Karlsson flytur ræðu á sumardaginn fyrsta í kirkjunni árið 1957.
Helgi S. Jónsson og Karl Steinar Guðnason.
Í skátamessu á sumardaginn fyrsta voru fimm ungar mæður úr Kefavík sem allar voru skátastúlkur sem létu skýra börnin sín. Hér má sjá Ingibjörgu Elíasdóttur með dóttur sína sem fékk nafnið Kristín. Prestur var séra Jakob Jónsson.