Skemmtibátur í vandræðum við Voga
Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru boðaðar á næst hæsta forgangi vegna lítils skemmtibátar sem hafði misst allt vélarafl um hálfan kílómeter frá landi, rétt utan Voga, um hádegisbil í dag.
Björgunarsveitir fóru á tveimur björgunarbátum til móts við skemmtibátinn. Þrír einstaklingar voru þar um borð.
Björgunarbátarnir voru lagðir úr höfn rétt upp úr hálf eitt og voru komnir að bátnum skömmu síðar. Vel gekk að koma taug á milli skemmtibáts og björgunarbátsins Njarðar, sem dró skemmtibátinn svo til hafnar í Vogum á Vatnsleysuströnd, þangað sem þeir voru komnir rétt upp úr klukkan eitt í dag.
Engan sakaði, segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.