Skemmdu vinnuskúr við Seltjörn
Ófögur sjón tók á móti meðlimum í Flugmódelfélagi Suðurnesja síðastliðið föstudagskvöld við nýju flugmódelbrautina við Seltjörn. Skemmdarvargar höfðu lagt leið sína um svæðið og slett viðarvörn upp um alla vegg og á gólf í vinnuskúr sem staðsettur er við brautina. Magnús Kristinsson, formaður Flugmódelfélags Suðurnesja, mun hugsanlega kæra atvikið til lögreglu.
Flugmódelflugvöllurinn við Seltjörn var vígður og tekinn í notkun á Ljósanótt og með fylgdi vinnuskúr þar sem flugmódelfélagið hafði aðstöðu og þar uppi hékk tíðnitafla. Taflan hafði verið eyðilögð með viðarvörn en hún er eitt helsta verkfæri félagsins og liggur mikil vinna að baki töflunnar. „Það er erfitt og næstum því ómögulegt að ná viðarvörninni af, þetta er mikill skaði fyrir okkur og það var virkilega leiðinlegt að koma að svæðinu svona,“ sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir.
Magnús sagði ennfremur að tilgangur þeirra er skemmdarverkin frömdu hefði sá einn verið að eyðileggja. Engu var stolið en inni í skúrnum voru verkfæri og aðrir hlutir sem félagið notast við í starfsemi sinni.