Skemmdir vegna óveðursins í Leiru
Veðurguðirnir létu til sín taka í Leirunni en miklar skemmdir urðu á skúr við golfskálann og eins í gamalli skúrbyggingu rétt utan við golfvallarsvæðið. Þá urðu skemmdir á þaki golfskálans og fánastöng.
Þakið fór af í heilu lagi af einum af átta skúrum við golfskálann en í þeim eru golfbílar geymdir. Svo virðist sem hurð hafi gefið sig í rokinu og þannig hefur myndast mikill þrýstingur inni í skúrnum með þeim afleiðingum að þakið rifnaði af í heilu lagi. Þá fór þakplata af golfskálanum og flaggstöng gaf sig í látunum. Gömul skúrbygging rétt utan æfingasvæðis Golfklúbbs Suðurnesja gaf einnig upp öndina í ofsaveðrinu.
Hjálparsveitarfólk var við húsnæði Hópferðabíla Sævars Baldurssonar við Vesturgötu í Keflavík en hluti þaksins rifanði upp í óveðrinu.
Þakið flaug um fimmtíu metra og endaði í móanum rétt við skilti golfklúbbsins.
Gömul skúrbygging í Leirunni, rétt utan við æfingasvæði golfklúbbsins, gaf sig í látunum eins og sjá má.
Ein af flaggstöngunum á Hólmsvelli í Leiru gaf sig og liggur á jörðinni eftir átökin við veðurguðina.
Stórar tjarnir hylja nú nokkrar flatir og stór svæði á Hólmsvelli í Leiru. Stór hluti 4. og 6. brautar er undir vatni og einnig 9. flöt.
Skemmdir urðu á þaki húsnæðis Hópferðabíla Sævars Baldurssonar.