SKEMMDIR OG SLÆM UMGENGNI
„Þetta er oft skrautlegt útlitið í hraðbankanum á laugardagsmorgnum enda ekki við öðru að búast þegar safnast saman tugir ungmenna og dvelja þar tímunum saman“, sagði Elín Aspelund, útibússtjóri Sparisjóðsins í Grindavík vegna ónæðis af völdum unglinga í hraðabankanum um helgar en hann er staðsettur í anddyri verslunarmiðstöðvarinnar við Víkurbraut.Umgengni í hraðbankanum hefur verið mjög slæm eftir helgarnar og skemmdir oft unnar. Seint sl. haust vann ungur piltur miklar skemmdir á hraðbankanum og var hann kærður vegna atviksins en upp um hann komst með hjálp upptökumyndavélar sem staðsett er í hraðbankanum. „Krakkarnir koma mikið hingað og dvelja hér í hraðbanknum. Þeir hafa fiktað með eld og svo er umgengnin slæm. Verslunareigendur hér í miðstöðinni segja að útlitið sé mjög slæmt oft á tíðum þegar þeir opna á laugardagsmorgun“, sagði Elín.Krakkarnir komast inn í hraðbankanum með kortum sem mörg þeirra eru með. Að sögn Elínar hefur komið til tals að loka hraðbankanum vegna þessa ástands en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það enda er vonast til að ástandið lagist. „Þetta er náttúrlega engan veginn nógu gott. Fólk sem vill nota þessa þjónustu veigrar sér við að fara þarna inn þegar tíu til fimmtán krakkar eru fyrir innan“, sagði Elín.Vandræði vegna skemmdarverka unglinga í Grindavík hafa verið á fleiri stöðum, m.a. í anddyri Verkalýðshússins við sömu götu. Þar hafa rúðbrot verið mjög tíð. Aö sögn lögreglunnar í Grindavík hefur ástandið þó verið betra undanfarnar vikur.