Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 3. júní 2002 kl. 15:14

Skemmdarverk unnin í Garðinum

Það var ekki skemmtileg sjón sem blasti við íbúunum á Gerðavegi 7b í Garði þegar þau komu heim í gær eftir helgarferð norður. Búið var að vinna gríðarleg eignarspjöll í garðinum við húsið og var allt á öðrum endanum. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er talið að unglingar sem voru á andvökunótt félagsmiðstöðvar skólans hafi átt einhvern þátt í þessum skemmdarverkum en það er þó ekki vitað fyrir víst.Þegar íbúarnir komu heim á sunnudag var búið velta grjóti um allan garðinn, runnar höfðu verið rifnir upp með rótum og þeim hent hingað og þangað og reiðhjól sem lágu við húsið höfðu verið skemmd. Ekki létu skemmdarvargarnir sér þetta nægja því búið var að reisa upp stiga að vaskahúsglugga hússins og þar voru gluggatjöldin rifin niður og þeim hent í ruslið.

Einnig var bolta og hlaupahjóli stolið ásamt ýmsu öðru sem fannst við nánari leit.
Gríðarlega mikil vinna hafði verið lögð í að gera garðinn vel út lítandi og því tók töluverðan tíma fyrir heimilisfólkið að laga til eftir skemmdarvargana og sumt af því sem var skemmt var ómögulegt að laga.

Nokkuð víst þykir unglingar hafi verið þarna að verki þar sem töluverð átök þurfti til að reisa upp stigann og henda þessum hlutum öllum til og frá. Vitað er að andvökunótt hjá félagsmiðstöð Gerðarskóla var á sama tíma og atvikið átti sér stað og er talið mjög líklegt að einhverjir þaðan hafi átt sökina á þessu enda voru talsverð læti frá skólanum sama kvöld að sögn heimildarmanns blaðsins, en húsið sem um ræðir er mjög nálægt skólanum. Það hefur þó ekki verið staðfest og er málið í rannsókn hjá lögreglu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024