Skemmdarverk unnin á gæsluvelli
Síðustu daga hafa verið unnin skemmdarverk á Miðtúnsróló, en þar eru þær Magnea Grétarsdóttir og Anna Andrésardóttir með barnagæslu. Svo virðist sem að unglingar geri sér það að leik að skemma hluti á gæsluvellinum en þar hefur grindverk verið skemmt og kofi sem þar stóð er algjörlega ónýtur. Magnea segir að á morgnana þurfi hún yfirleitt að týna upp sígarettustubba af lóðinni. „Um síðustu helgi var brotin rúða hjá okkur og spreyjað á veggi. Eftir helgarnar þurfum við að týna upp glerbrot og sígarettustubba af lóðinni,“ segir Magnea og bætir við að kofinn sem eyðilagður var hafi verið mikið notaður af börnunum. „Okkur finnst þetta ömurlegt og börnunum auðvitað líka. Það eru um 3 vikur síðan við löguðum grindverkið, en það virðist ekki þýða neitt því það er skemmt strax aftur,“ sagði Magnea í samtali við Víkurfréttir.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr.: Það er ekki mikið eftir af kofanum sem krakkarnir á Miðtúnsróló léku sér í.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr.: Það er ekki mikið eftir af kofanum sem krakkarnir á Miðtúnsróló léku sér í.