Skemmdarverk unnin á dagvistun þroskaheftra á Suðurnesjum
Skemmdarverk voru unnin á lóð dagvistunarheimilis Þroskahjálpar á Suðurnesjum við Suðurvelli í Keflavík um helgina. Nokkrir blómapottar voru brotnir, rúða og borð í kofa sem stendur á lóðinni voru brotin og bátur sem grafin er í jörð var skemmdur töluvert. Gísli Jóhannsson framkvæmdastjóri Þroskahjálpar á Suðurnesjum sagði í samtali við Víkurfréttir að þessi skemmdarverk væru óþolandi. „Mér finnst ótrúlegt að nokkur skuli gera þetta og tjónið er mest tilfinnanlegt,“ segir Gísli. Á dagvistunarheimilinu verða um 15 þroskaheft börn á aldrinum 5 til 15 ára í vetur í heilsdagsvistun, en um 20 börn voru í vistun þar í sumar. Málið var tilkynnt til Lögreglunnar í Keflavík í morgun sem rannsakar nú málið.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Rúða og innanstokksmunir í kofanum voru brotin.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Rúða og innanstokksmunir í kofanum voru brotin.