Skemmdarverk og rusl við Krísuvíkurkirkju
Það var ófögur sjón sem blasti við vegfarendum í Krísuvík þar sem fólk hafði augljóslega komið saman að skemmta sér um helgina. Gestirnir skildu eftir sig talsvert magn af rusli á túninu við kirkjustæðið í Krísuvík. Auk þess að dreifa rusli um svæðið höfðu gestirnir kveikt í vörubrettum og unnið skemmdir á sviði sem er á svæðinu. Marta Sigurðardóttir bæjarfulltrúi í Grindavík var á ferðinni um Krísuvík á sunnudag og greindi hún frá þessu á Facabooksíðu sinni. Marta segir að Óskar Sævarsson landvörður og kona hans Guðbjörg Eyjólfsdóttir hafi verið önnum kafin við þrif þegar hana bar að.