SKEMMDARVARGAR SETTU NEYÐARSENDI Í GANG
Margir bæjarbúar í Reykjanesbæ urðu forvitnir þegar stóra þyrla Landhelgisgæzlunnar, TF-LÍF, flaug ítrekað lágflug yfir byggðina í Keflavík og Njarðvík með leitarljósin kveikt í þann mund er verslanir voru að loka að kvöldi Þorláksmessu. Það fór heldur ekki framhjá neinum þegar þyrlan síðan lenti í grýttum móanum milli Flugvallarvegar og Samkaupa. Forvitnir þustu á svæðið og fylgdust með þegar lögreglan flutti stýrimann þyrlunnar með hraði af vettvangi. Strax komu upp spurningar hvort stórslys hefði átt sér stað eða hvort þarna ætti að fara fram björgunarsýning.Ástæðan fyrir komu þyrlunnar var hins vegar sú að gervitungl nam sendingar frá neyðarsendi og fyrst var talið að boðin kæmu frá Vatnsleysuvík, skammt frá Kúagerði. Þyrlan var send af stað en hún nam hins vegar merki frá sendinum í Keflavíkurhöfn. Til að ganga úr skugga um hvar sendingin væri nákvæmlega var flogið leitarflug yfir bæinn. Stýrimaður á þyrlunni fann sendinn á brúarþaki Happasæls KE en þar höfðu skemmdarvargar verið á ferð og rofið innsigli á sendinum og sett hann af stað. Að auki skemmdu þeir jólaskreytingar á skipinu.Skemmdarverkið er litið alvarlegum augum þar sem útkall sem þetta er kostnaðarsamt og neyðarsendirinn er jafnframt nauðsynlegur á skipinu ef það lendir í háska.VF-tölvumyndir: Hilmar Bragi