Skemmdarvargar eyðileggja blaðakassa
Fréttablaðskassar í Garði hafa undanfarið verið skotspónar skemmdarvarga sem virðast fá einhverja ánægju út úr því að eyðileggja kassana, brjóta þá og skemma. Einstaklingar með svo einkennilegar hvatir hafa komið í veg fyrir að íbúar í Garði fái blaðið á hverjum morgni í hverfið sitt.
Á heimasíðu bæjarins er birt bréf frá útgefendum Fréttablaðsins til bæjaryfirvalda. Þar segir að flest sveitarfélög á suðvesturhorninu séu með blaðakassa sem gefist hafi mjög vel. Í Garði fái þeir hins vegar ekki að vera í friði fyrir skemmdarvörgum og er óskað eftir samstarfi við bæjaryfirvöld til að koma í veg fyrir þetta þannig að íbúar í Garði geti áfram notið þjónustunnar.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, hvetur bæjarbúa til að svara þessum óskum með því að uppræta skemmdarvarga og segja til þeirra.