Skemmdarvargar aftur á ferð hjá ÍAV
- Í annað sinn á skömmum tíma.
Lögreglunni á Suðurnesjum var í vikunni tilkynnt að unnin hefðu verið skemmdarverk á vinnuvélum í eigu Íslenskra aðalverktaka. Vélarnar voru staðsettar á geymslusvæði ÍAV í Njarðvík og höfðu skemmdarvargarnir brotið rúður í fjórum þeirra.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem spellvirki eru unnin á vinnuvélum ÍAV, því nýverið voru miklar skemmdir unnar á fjórum byggingakrönum sem stóðu við steypustöð ÍAV. Gler höfðu meira eða minna verið brotin í húsum þeirra, auk þess sem ljós á þeim höfðu einnig verið brotin. Þá höfðu stjórntæki í einum krananum verið skemmd.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málin.