Skelfilegt ástand á Stapa
– ruslið fýkur yfir Reykjanesbæ
	Ástandið á jarðvegslosunarsvæði Reykjanesbæjar á Stapanum, rétt innan við byggðina í Dalshverfi, er skelfilegt. Þar fara umhverfissóðar í skjóli myrkurs og jafnvel um hábjartan daginn og losa sig við rusl sem alls ekki má losa á þessum stað.
	
	Meðfylgjandi ljósmyndir tók ljósmyndari Víkurfrétta á losunarsvæðinu sl. föstudag og það þarf ekki að hafa mörg orð um það sem sést á myndunum. Ástandið er skelfilegt, svo vitnað sé til íbúa sem hafði samband við blaðið og blöskraði ástandið.
	
	Á svæðinu eru að myndast risastórir haugar og rusl og drasl fýkur um allar jarðir og yfir byggðina í Innri Njarðvík.
	
	Í færslu á fésbókinni segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjanesbæjar að hann geti staðfest að þessi sóðaskapur kostar Reykjanesbæ töluverða fjármuni á ári. Hann mun eiga fund með stjórnendum Kölku á næstunni þar sem farið verður yfir losunardaga, en hugmyndir eru komnar fram um ákveðna daga þar sem losun á úrgangi sem þessum yrði ókeypis.
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	
	VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson


 
	
					 
	
					


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				