Skaust til Alicante
Fólk finnur ýmis sparnaðarráð í kreppunni. Eitt felst í því að leggja bílnum í almenningsstæði þegar maður fer til útlanda og losna þannig að greiða geymslugjald við flugstöðina. Nokkuð hefur borið á þessu síðustu mánuði við dræmar undirtektir þeirra sem eiga bílastæðin enda eru þau ekki hugsað sem langtímabílastæði.
Eigandi þessarar Land Rover bifreiðar lagði henni fyrir utan pósthúsið í Keflavík, svona rétt á meðan hann „skaust til Alicante” eins og hann orðaði það sjálfur í samtali við stöðvarstjóra pósthússins, sem hafði símasamband við manninn. Þá hafði bílinn verið á stæðinu í einn og hálfan sólarhring en eigandinn kvaðst ætla að vera í viku í þessum skottúr á sólarströnd. Stöðvarstjórinn mun ætla að láta draga bílinn í burtu.
Snemma í sumar greindi VF frá bíl sem hafði verið lagt í bílastæði heimahúss við Heiðarenda, við litla hrifningu íbúanna. Umráðamenn bílsins höfðu lagt þar einn morguninn, fært farangurinn yfir í annan bíl og látið skutla sér upp í flugstöð.