Skattaskil margra eru ekki í samræmi við eignir þeirra og lífsstíl
„Skattaskil margra eru ekki í samræmi við eignir þeirra og lífsstíl,“ sögðu bæjarfulltrúarnir Kristján Gunnarsson (Alþýðuflokki) og Jóhann Geirdal (Alþýðubandalagi) á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í september árið 1995.
Þegar bæjarstjórinn í Reykjanesbæ viðraði svipað mál í sumar þótti sumum hann fara á hálan ís en samkvæmt þessari gömlu frétt í VF hefur þessi umræða komið áður í bæjarstjórn.
Í gömlu fréttinni segir m.a.:
Þeir Jóhann og Kristján vöktu athygli á þessu máli í framhaldi af umræðu um skattlagningu á framfærslu og styrkjum sveitarfélaga til einstaklinga.
Kristján Gunnarsson sagðist hafa skoðað skattskrána og
skrifað niður hjá sér margar athyglisverðar tölur:
„Hér má sjá marga greifa keyra um göturnar sem skila lægra útsvari en verkafólk með lægstu tekjur. Ásókn til féalgsmálastofnunar hlýtur að stórauka á næstunni því varla geta þessir menn lifað af svona lágum tekjum,“ sagði verkalýðsforinginn í bæjarstjórn og bætti við: „Það er óskiljanlegt hvernig menn með 650 þús. kr. í árslaun geti átt 18 millj. kr. hús, ekið um á 5 millj. kr. bifreiða og farið í nokkrar utanlandsferðir. Þetta er til skammar og á ekki að viðgangast og við í bæjarstjórn eigum að fara ofan í þetta mál.“