Skarphéðinn Jónsson nýr skólastjóri í Garði
Skarphéðinn Jónsson verður ráðinn nýr skólastjóri Gerðaskóla. Það varð niðurstaða bæjarfulltrúa á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs. Ráðning Skarphéðins í starfið var samþykkt samhljóða.
Jónína Holm vék sæti undir þessum lið vegna vanhæfis en Agnes Ásta Woodhead, varabæjarfulltrúi N-listnas tók sæti hennar undir þessum lið.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs þakkar öllum þeim sem sóttu um starf skólastjóra við Gerðaskóla. Einnig vill bæjarstjórn þakka Gylfa Jóni Gylfasyni fræðslustjóra sem hélt utan um og stjórnaði ráðningarferlinu ásamt Ingvari Sigurgeirssyni prófessor við Háskóla Íslands og Helgu Jónsdóttur fulltrúa frá Capasent.
Bókun D-lista:
„D-listinn mun standa á bak við nýráðinn skólastjóra Gerðaskóla og óskar eftir því að eiga gott samstarf við hann eins og aðra starfsmenn sveitarfélagsins. Það er mikilvægt að skólastjórinn fái stuðning og svigrúm til að koma sem fyrst í framkvæmd þeim mikilvægu ábendingum sem fram komu í skýrslu Attendus í úttekt á starfsemi skólans. Það er grundvöllur að bættu skólastarfi í Gerðaskóla sem var kosningaloforð D-lista við síðustu kosningar.
D-listinn treystir því að nú þegar verði auglýstar þær stöður sem úttektaraðilar skýrslunnar bentu á í úttekt sinni, þ. e. tvær stöður deildarstjóra og staða sérkennara og fagstjóra sérkennslu við Gerðaskóla. Allur dráttur á framkvæmd ábendinga sem fram komu í skýrslunni verður til þess að seinka því að treysta og bæta starf skólans með hagsmuni nemenda að leiðarljósi“.