Skapa öruggt og hvetjandi umhverfi fyrir öll börn og ungmenni í Reykjanesbæ
Fræðsluráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að senda drög að menntastefnu Reykjanesbæjar 2021–2030 til afgreiðslu í bæjarstjórn. Vinna við endurskoðun menntastefnu Reykjanesbæjar hófst á vormánuðum 2020 með stofnun stýrihóps sem skipaður var fulltrúum skólastjórnenda, leikskólastjóra, leikskólakennara, grunnskólakennara, nemenda, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fræðslusviðs ásamt íþrótta- og tómstundafulltrúa, fræðslustjóra, formanni fræðsluráðs og ritstjóra.
Drög að menntastefnu Reykjanesbæjar 2021–2030 voru lögð fram á fundi fræðsluráðs í júní síðastliðnum. Að því loknu voru drögin send kjörnum nefndum og ráðum Reykjanesbæjar til umsagnar.
Stefnan hefur hlotið heitið „Með opnum hug og gleði í hjarta“. Hún tekur mið af grunnstefnu Reykjanesbæjar sem ber heitið „Í krafti fjölbreytileikans“ og stefnuáherslu hennar „Börnin mikilvægust“ ásamt Barnasáttmála og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Menntastefna fyrir Ísland til 2030 er einnig höfð til hliðsjónar sem og gildandi aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Meginmarkmið menntastefnunnar er að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta. Stefnan byggir á þremur leiðarljósum sem eiga að einkenna allt starf með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Leiðarljósin eru „Börnin mikilvægust“, „Kraftur fjölbreytileikans“ og „Faglegt menntasamfélag“.