Skal heita Norðurljósavegur
	Nýjasta gatan í Sveitarfélaginu Garði fær nafnið Norðurljósavegur. Gatan er á nýju skipulagssvæði við Garðskaga þar sem m.a. er gert ráð fyrir hótelum og gistihúsum.
	
	Þetta var samþykkt í bæjarstjórn Garðs fyrir helgi. Þar var jafnframt samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið. Bæjarstjórn samþykkti með 6 atkvæðum úthlutunarskilmála fyrir skipulagssvæðið, eins og þeir liggja fyrir í drögum með áorðnum breytingum frá Skipulags-og byggingarnefnd sveitarfélagsins. Gísli Heiðarsson bæjarfulltrúi tók ekki þátt í umræðum og afgreiðslu en fyrirtæki sem hann á hlut í hefur fengið úthlutað lóð undir gististað á skipulagssvæðinu.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				