Skákmenn af Suðurnesjum etja kappi við Sokolov
Skák-Helgi stendur yfir í Reykjanesbæ í dag og á morgun með þéttri dagskrá tileinkaðri skáklistinni. Í morgun fór fram skákmót þar sem 4 efstu fá þátttöku í afmælismóti Helga Ólafssonar, sem fram fer á morgun, sunnudag.
Eftir hádegi í dag hófst svo fjöltefli í Heiðarskóla þar sem skákáhugamenn af Suðurnesjum glíma við meistara Ivan Sokolov.
Afmælismót Helga Ólafssonar fer fram á morgun í Duus-húsum frá kl. 12 – 16.
Mótið er opið gestum þannig að skákáhugamenn ættu ekki að láta sig vanta, enda munu margir kunnir skákmeistarar taka þátt í mótinu. Auk afmælisbarnsins, Helga Ólafssonar, taka þátt þeir Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, Ivan Sokolov, Jón L. Árnason, Friðrik Ólafsson, Hannes H. Stefánsson, Guðmundur Sigurjónsson, Hendrik Danielsen, Þröstur Þórhallsson, Helgi Áss Grétarsson, Lenka Ptacnikóva, Róbert Harðarson og fl.
Mynd: Frá fjölteflinu í Heiðarskóla þar sem Ivan Sokolov teflir við skákmenn af Suðurnesjum.
VF-mynd:elg