Skaðabótamál við Reykjanesbæ gæti komið til greina
287 umsagnir hafa borist til Umhverfis- og skipulagsráðs.
Borist hafa 287 umsagnir til Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar vegna tillögu að deiliskipulagi til að sameina lóðir fyrir kísilver í Helguvík í eigu Thorsil sem er eftir að byggja. Morgunblaðið greinir frá í dag.
Eins og fram hefur komið í Víkurfréttum efndu hundruð manns efndu til táknrænna mótmæla í Reykjanesbæ í síðustu viku með kröfugöngu og hestareið og kröfðust þess að fá íbúakosningu um breytt deiliskipulag í Helguvík.
Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, segir í sömu umfjöllun í Morgunblaðinu að hann telji að grundvöllur skaðabótamáls hljóti að vera kannaður nái kísilverið ekki fram að ganga. Samningur við bæinn um lóðina til að reka verksmiðju af þessu tagi hafi verið undirritaður og þá kæmi það Hákoni mjög á óvart ef blaðinu yrði snúið við.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Eysteinn Eyjólfsson, formanns Umhverfis- og skipulagsráðs, að ráðið leggi áherslu á að fara ítarlega yfir allar umsagnir og vanda til verks. Eins hafi ráðið lagt upp með að bæjarbúar hafi greiðan aðgang að upplýsingum er varða málið. Öllum athugasemdum sé tekið alvarlega enda er málið hitamál meðal bæjarbúa. Talið sé að aldrei hafi eins margar umsagnir borist ráðinu vegna nokkurrar tillögu hingað til. Ákvörðun um málið hafi verið verið frestað til aukafundar 27. maí.