Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjúkraflutningamenn heyrðu af nauðlendingu í fréttum
Sunnudagur 27. ágúst 2006 kl. 01:00

Sjúkraflutningamenn heyrðu af nauðlendingu í fréttum

Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, segir þörf á að endurskoða útkallskerfi neyðaraðila í kjölfar nauðlendingar Boeing 777 þotu British Airways í Keflavík á sjöunda tímanum í gærkvöldi, laugardagskvöld. Brunavarnir Suðurnesja annast sjúkraflutninga á Suðurnesjum, en þar á bæ heyrðu menn af fyrirhugaðri nauðlendingu í fjölmiðlum.

Neyðarlínan kallaði út kl. 18:08 svokallað “F1 – Rauður – Neyðarstig 2 – Keflavíkurflugvöllur – stórt útkall. – Boeing vél með eld í farþegarými og 268 farþega”.

Allar björgunarsveitir á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu voru virkjaðar, starfsfólk sjúkrahúsa sett í viðbragðsstöðu, svo og Rauði Krossinn, lögregla, slökkvilið og fleiri aðilar.

Farþegaþotan var hins vegar stödd skammt frá Keflavíkurflugvelli þegar reyks varð vart í farþegarýminu, eða 50 mílur suð-vestur af Reykjanesi. Það tók vélina því eingöngu fáeinar mínútur að snúa til Keflavíkur. Að sama skapi höfðu viðbragðsaðilar mjög skamman tíma til viðbragðs.

Stefán Thordersen, yfirmaður öryggismála hjá Flugmálastjórninni á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við Víkurfréttir í gærkvöldi að farið verði yfir atburðarásina á fundi strax á mánudag, þar sem menn vilji draga lærdóm af atvikinu og bæta þá þætti sem má bæta.

Mynd: Þota British Airways nauðlendir á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024