Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjúkraflutningamaður af Suðurnesjum á leiðinni til Palestínu
Miðvikudagur 9. júní 2004 kl. 21:18

Sjúkraflutningamaður af Suðurnesjum á leiðinni til Palestínu

Haraldur Haraldsson leiðbeinandi hjá Björgunarsveitinni Suðurnes hélt til Palestínu í morgun á vegum félagsins Ísland Palestína. Harald mun næsta mánuðinn starfa sem sjúkraflutningamaður á Gaza ströndinni ásamt félaga sínum Birni Jóhanni Gunnarssyni sem hefur starfað um árabil með Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Í Palestínu munu þeir starfa með Palestínska Rauða hálfmánanum, systursamtökum Rauða krossins.
Haraldur hefur síðustu 17 árin starfað með Björgunarsveitinni Suðurnes og síðustu ár hefur hann starfað sem leiðbeinandi í skyndihjálp á vegum björgunarsveitarinnar. Harald hefur einnig tekið vaktir með sjúkrabílum Brunavarna Suðurnesja en Harald er útskrifaður úr sjúkraflutningaskóla Íslands.
„Við erum búnir að fá vilyrði fyrir því að vera í hóp sem er að gera svipaða hluti og Björgunarsveitin Suðurnes hvað varðar greiningu og hópslys. Það er sá hópur sem við ætlum að vera mest með, en við verðum líka í almennum sjúkraflutningum,“ segir Haraldur og honum líst vel á að vera á leiðinni til Palestínu en í landinu hefur verið mikill órói síðustu árin. „Þetta leggst betur í mig heldur en fjölskyldu mína sem er kannski skiljanlegt. Maður veit auðvitað að það getur allt gerst. Þetta er ófriðarsvæði og það eru fjölmörg dæmi um að ísraelskir hermenn hafi ráðist á sjúkraflutningamenn,“ segir Haraldur.
Haraldur og Björn Jóhann munu starfa með heimamönnum og verða þeir á tólf tíma vöktum. „Við vinnum frá klukkan fjögur á daginn til fjögur á nóttunni en þannig verður fyrsta vaktatörnin. Við munum starfa í tengslum við sjúkrahús á Gaza ströndinni,“ segir Haraldur en þeir félagar eru orðnir spenntir að fara en hann segir að þeir séu báðir með smá hnút í maganum. „Þetta verður mjög mikil lífsreynsla sem við munum ná okkur í þarna úti. Við komum til með að gista á heimili hjá velunnurum Rauða hálfmánans í Gaza borg og því fáum við tækifæri til að kynnast hinu almenna lífi vel.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024