SJÓSLYS ÚT AF HAFNARBERGI
Síðastliðinn mánudag um kl. 18 var Badda GK 277, 5,6 tonna plastbátur, siglt á bakborðskinnung Jóns Erlings GK 222, 51 tonna snurvoðabátur, sem var að toga u.þ.b. tíu sjómílur suðvestur af Sandgerði. Talsvert högg hlaust af árekstrinum og skemmdust báðir bátar auk þess sem skipverji á Badda slasaðist og var sóttur af þyrlu Landhelgisgæslunnar út af Hvalsnesi. Skv. upplýsingum VF rifbeinsbrotnaði hásetinn og fékk að fara heim að skoðun lokinni. Gat kom á perustefni Badda, sem skemmdist einnig ofan sjólínu, og lunningin á Jóni Erlingi brotnaði. Báðir bátar eru komnir í slipp en sjóprófa hefur ekki enn verið óskað. Mesta mildi þykir að ekki fór ver.