Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjórinn tók vörubílinn eins og eldspýtustokk og henti honum út í sjó
Laugardagur 11. febrúar 2012 kl. 12:39

Sjórinn tók vörubílinn eins og eldspýtustokk og henti honum út í sjó

Tólf bátar, smábíll og vörubíll skemmdust eða eyðilögðust í Sandgerðishöfn í óveðri fyrstu dagana í janúar 1984. Bátarnir, 9 litlir þilfarsbátar og þrír stærri ráku upp í fjöru í óveðrinu, smábíllinn fauk út í sjó og einnig vörubíllinn með manni innanborðs sem þó bjargaðist. Frá þessu er sagt í fyrsta tölublaði Víkurfrétta í ársbyrjun 1984.

Fyrstu bátarnir slitnuðu frá bryggjunni í Sandgerði um klukkan hálf-sjö um morguninn sem óveðrið skall á og fóru upp í grjót.

„Þegar séð var hvað verða vildi fórum við heim og hringdum í viðkomandi aðila og fór Svavar Ingibersson á vörubílnum niður á bryggju og komum við böndum á bátana en hugmyndin var að draga þá frá grjótinu með bílnum. En sjórinn tók vörubílinn eins og eldspýtustokk og henti honum út í sjó. Það bjargaði Svavari sem fór niður með vörubílnum að það var maður á bryggjunni sem náði honum strax þegar hann kom út úr bílnum. Var hann orðinn þrekaður en hafði þó meðvitund og var strax fluttur á sjúkrahús. Eftir þetta óhapp komu bátarnir hver af öðrum upp í grjótið og urðu alls níu, auk stóru bátanna. Náðust síðan fjórir litlir út og tveir stærri,“ sagði Páll Jónsson, eigandi eins bátsins í viðtali við Víkurfréttir.


Annar bátseigandi, Preben W. Nilsen úr Keflavík segir svo frá um sinn bát sem fauk til og frá eins og korktappi í rokinu: „Hann (báturinn) var kominn hér upp á bryggjuna og síðan má segja að hann hafi flotið hér um alla bryggjuna, því sjór var yfir öllu. Síðan hvarf hann allt í einu og ég hélt að hann væri sokkinn en þá hafði hann henst út á höfnina og í leiðinni hafði hann komið við einhverja báta, því mastrið hafði brotnað. Síðan rak hann hérna upp með öllu og yfir í grjótið og endaði uppi í horni,“ sagði Preben og bætti því við að stór hluti bátaflotans í Sandgerði færi sennilega ekki í róður í bráð.

Í forsíðugrein er því velt upp hvort mannleg mistök hafi átt stóran þátt í því hve illa fór. Eigendur bátanna hefðu ekki farið eftir ábendingum og viðvörunum um að svo vont veður væri í aðsigi og ekki gert nægar ráðstafanir til að mæta því. Auk skemmdanna í Sandgerði varð líka nokkuð tjón í Höfnum þegar sjór flæddi upp að sjö húsum.





Myndir úr Ljósmyndasafni Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024