Sjórinn teppalagður af þorski
Líf og fjör á höfninni í Grindavík eftir að vatni var hleypt á
Það var líf og fjör á hafnarsvæðinu í Grindavík í dag þegar vatni var hleypt á hafnarsvæðið og ekki minnkaði fjörið þegar línubáturinn Vésteinn sem er í eigu Einhamars, kom drekkhlaðinn í höfn og landaði fjórtán tonnum. Skipverjar voru á fullu að koma körunum aftur um borð og voru á leiðinni aftur út, þeir voru bara tæplega hálfnaðir að draga línuna en báturinn orðinn fullur. Sjórinn virðist vera teppalagður af þorski.
„Vatn er eitt af frumskilyrðum fyrir að líf þrífist, þess vegna er þetta jákvætt skref fyrir endurreisn Grindavíkurbæjar. Það var hleypt vatni á hafnarsvæðið og mér sýnist það hafa gengið vel. Ég heyrði af því að einhvers staðar hafi síur verið stíflaðar en það verður þá bara lagað. Við hér á höfninni erum klárir, getum farið að afgreiða vatn í skipin sem er þeim nauðsynlegt til þrifa og neyslu. Staðan á höfninni er góð sýnist mér, innviðirnir eru vel nothæfir en það hefur orðið sig, við gætum lent í vandræðum á stórflóðum í framtíðinni en það eru bara verkefni sem við tökum á þegar þar að kemur. Nú er bara að klára þessa vertíð, sjórinn er fullur af fiski og vonandi streyma bátar hingað inn með fisk og vinnsla geti hafist. Ég vona að við séum búin að læra af þessum atburðum undanfarið, að öllum líkindum mun gjósa fljótlega og hugsanlega verður þetta viðvarandi ástand í einhvern tíma en við eigum ekki að þurfa setja allt í lás í svona langan tíma eins og verið hefur. Við erum komin með flotta varnargarða og þetta er kannski svipað og með innsiglinguna, stundum er hún ekki fær eins og í gær. Yfir vetrarmánuðina kemur það fyrir og þá bregðast menn við því en 95% ársins er hún opin, við eigum að geta unnið þetta svipað með jarðeldana, þ.e.a.s. ef það gýs fyrir utan Grindavík. Ég held að það sé bara bjart framundan í Grindavík,“ sagði Sigurður.
Stefán Kristjánsson, annar eigenda Einhamar seafood, var kampakátur að aðstoða við löndun þegar blaðamann bar að garði. „Jú, það er svo sannarlega líf og fjör í dag, þetta er okkar fyrsta löndun hér í Grindavík síðan í maí fyrra. Við höfum verið fyrir austan og erum agalega glaðir að vera komnir í heimahöfn. Sjórinn virðist hreinlega vera teppalagður af þorski, Vésteinn var bara rétt tæplega hálfnaður með að draga línuna og búinn að fylla dallinn, fjórtán tonn svo þeir eru á leiðinni út aftur. Við vinnum þennan fisk síðan á morgun, gátum ekki byrjað í dag því það var ekki komið vatn til mín en það verður komið á morgun og þá verður fiskurinn unninn.
Ég er mjög bjartsýnn á framhaldið, nú er bara tími sátta, samvinnu og uppbyggingar er framundan,“ sagði Stefán.